top of page
Writer's pictureFrosti Jónsson

Samantekt ársins

Við tókum saman það helsta sem við fjölluðum um á blogginu okkar á árinu. Við fórum víða og skrifuðum meðal annars um sviptingar á auglýsingamarkaðinum, gervigreind og ChatGPT, betri nýtingu markaðsfjár, orðspor og áhrifavalda svo eitthvað sé nefnt. Hér er stutt samantekt af því helsta sem við fjölluðum um á árinu:


Kaflaskil á auglýsingamarkaði

Árið 2023 var viðburðarríkt ár á fjölmiðlamarkaði. Fréttablaðið hætti hætti útgáfu 1. Apríl, 22 árum eftir stofnun blaðsins. Endalok Fréttablaðsins eru með stærri kaflaskilum á íslenska fjölmiðla- og auglýsingamarkaðinum en blaðið var um árabil öflugur og leiðandi fjölmiðill með mikinn lestur, en um 90% landsmanna lásu eða flettu blaðinu þegar best lét (2007). Lesa alla greinina.


Góðar birtingar

Sumar auglýsingabirtingar eru betri en aðrar. Við fjölluðum um kosti efnismiðaðra (contextual) birtinga á vefmiðlum sem virðast skila betri árangri með lægri tilkostnaði en almennar og óstaðsettar birtingar. Dæmi um efnismiðaða staðsetningu eru auglýsingar húsgagnaverslana innan um efni sem fjalla um heimili og hönnun. Þar er fólk sem hefur áhuga á því sem er verið að auglýsa og er líklegra til að taka eftir auglýsingunum. Lesa meira um góðar birtingar.


Betri nýting markaðsfjár

Ýmislegt benti til þess að fyrirtæki myndu verja minna fjármagni í auglýsingar á árinu samhliða minni hagvexti og óvissu í efnahagsmálum. Óvissa í efnahagsmálum er reyndar engin nýlunda hér á landi og í stað þess að horfa eingöngu á krónur og aura (kostnað) þá ættu fyrirtæki að huga að betri nýtingu markaðsfjár með því að innleiða skýr markmið, mæla árangur og forðast að auglýsa meira en þörf er á. Lesa um betri nýtingu markaðsfjár.


Gervigreind

Mikil og fjörug umræða um gervigreind fór eins og stormsveipur um internetið og umræða um ChatGPT var fyrirferðamikil. Gervigreind gegnir líka veigamiklu hlutverki í markaðsstarfi. Algrími hjálpar okkur að besta árangur auglýsinga á netinu hvort sem um er að ræða auglýsingar á leitarvélum Google og Bing, vefauglýsingar eða hámarka árangur herferða á samfélagsmiðlum. Þá nýta fyrirtæki sér í auknum mæli hugbúnað eins og Jasper eða Copy AI til að skrifa texta eins og blogg og markpósta og hraða framleiðslu og birtingu á efni til muna, allt lausnir sem byggja á gervigreind. Meira um gervigreind og ChatGPT.


Hvenær skiptir meira máli en hversu mikið

Gæði umfram magn. Staðsetning auglýsinga (áreiti, dekkun) skiptir meira máli en magn (tíðni) auglýsinga. Í birtingaáætlunum til viðskiptavina þýðir þetta einfaldlega að það er mikilvægt að ná í eins hátt hlutfall af markhópnum með fyrstu birtingu (hámarka dekkun) þar sem áhrifin (árangurinn) eru mest og vita hvenær skynsamlegt er að kaupa fleiri birtingar þar sem þær bæta litlu við. Með öðrum orðum: Áherslan á að vera á tímasetningu birtinga (hvenær) og dekkun, það hversu margir hafa tækifæri á að sjá auglýsingunga. Lesa meira um auglýsingar og gæði birtinga.


Veðurtengdar auglýsingar

Krónan var fyrsti viðskiptavinur Birtingahússins til að nýta sér veðurtengdar auglýsingar og hlaut verðskuldaða athygli fyrir. Verkefnið var unnið í samvinnu við PlúsMedia og Brandenburg og tengir saman veðurskilyrði og viðeigandi auglýsingu og birtir á umhverfismiðlum. Stórskemmtilegt verkefni sem þar sem tækni og skemmtilegar hugmyndir vinna saman.


Sterk vörumerki og vörumerkjavirði

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Það er fjölmargt sem sterk vörumerki eiga sameiginleg. Vörumerkisvitund og vörumerkisímynd er uppspretta vörumerkjavirðis. Tilvist og styrkur vörumerkis byggir á huglægum þáttum, eitthvað sem gerist í höfðinu á fólki. Reglubundnar mælingar á stöðu vörumerkis ættu að vera sjálfsagður hluti í markaðsstarfi fyrirtækja. Mælingar af þessu tagi segja okkur heilmikið um stöðu vörumerkis gagnvart samkeppnismerkjum og árangur markaðsaðgerða svo sem auglýsingabirtinga. Lesa meira um sterk vörumerki og vörumerkjavirði.


Orðið á götunni

Umtal (Word Of Mouth, WOM, eWOM) er mörgum hugleikið enda orðspor og umtal mikilvægur áhrifavaldur þegar kemur að kaupákvörðun fólks. Umtal um vörumerki verður ekki til af sjálfu sér og á sér stað í samtölum á milli fólks og á netinu (eWOM). Auglýsingar geta aukið umtal um vörur, þjónustu og vörumerki. Samfellt auglýsingaáreiti til lengri tíma og skynsamlegt val á miðlum er ekki bara besta og árangursríkasta leiðin til að auka og viðhalda vitund um vörumerki, heldur einnig til að auka og viðhalda umtali um vörumerki. Lesa meira um orðspor (WOM).


Áhrifavaldar

Áhrifavaldar hafa verið mikið í sviðsljósinu enda hlutverk þeirra að vera sem mest áberandi, það er jú hluti af viðskiptamódelinu þeirra. Umræða um áhrifavalda og markaðsmál hefur samhliða verið nokkur en sitt sýnist hverjum um gagnsemi áhrifavalda í markaðsstarfi fyrirtækja. Hvað segja tölurnar og hver er ávinningurinn? Lesa alla greinina um áhrifavalda.




Recent Posts

See All

Comments


bottom of page